Þórsarar ræstu valtarann

Þór Þorlákshöfn tók á móti ÍR í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld. Gestrisnin var ekki mikil hjá Þórsliðinu því þeir hreinlega völtuðu yfir ÍR.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti, ákveðnir í vörn og sókn, og leiddu í hálfleik, 42-26. Þeir gerðu svo endanlega út um leikinn með 18-5 áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks og þá var staðan orðin 60-31. Það var engin leið fyrir ÍR-inga út úr þessari klípu og Þórsarar juku muninn eftir því sem leið á leikinn.

Heimamenn lokuðu leiknum á sannfærandi hátt með 35 skoruðum stigum í 4. leikhluta. Þar var Davíð Arnar Ágústsson í aðalhlutverki en hann raðaði niður fjórum þriggja stiga körfum á síðustu tveimur mínútunum. Lokatölur 107-64.

Þór er í 4. sæti deildarinnar með 6 stig að loknum fimm umferðum.

Tölfræði Þórs: Vance Michael Hall 27 stig/9 fráköst/5 stoðsendingar (30 í framlag), Davíð Arnar Ágústsson 17 stig/4 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 15 stig, Halldór Garðar Hermannsson 11 stig, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 10 stig/12 fráköst, Emil Karel Einarsson 9 stig/4 fráköst/9 stoðsendingar, Jón Jökull Þráinsson 5 stig, Magnús Breki Þórðason 5 stig, Ragnar Örn Bragason 4 stig/5 stoðsendingar, Hraunar Karl Guðmundsson 2 stig, Baldur Þór Ragnarsson 2 stig.

Fyrri greinHamar réð ekki við Haukana
Næsta greinFSu enn án stiga