Þórsarar fyrstir til að leggja KR

Þórsarar unnu frábæran útisigur á Íslandsmeisturum KR á útivelli í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld.

Þetta var fyrsta tap KR-inga í deildinni í vetur en með sigrinum fóru Þórsarar upp fyrir þá á stigatöflunni og sitja nú í 2. sæti deildarinnar með 8 stig.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en staðan að honum loknum var 42-40, KR í vil. Þórsarar mættu ferskir inn í 3. leikhlutann og náðu mest 11 stiga forystu en staðan að honum loknum var 58-65.

Síðasti fjórðungurinn var spennandi en þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir leiddu Þórsarar 75-78. Í kjölfarið komu tólf stig í röð frá Þór sem KR-ingar áttu ekkert svar við og lokatölur urðu 75-90.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 33 stig/8 fráköst/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 13 stig/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 10 stig, Ólafur Helgi Jónsson 9 stig/4 fráköst/3 varin skot, Maciej Baginski 7 stig, Halldór Hermannsson 7 stig, Ragnar Bragason 6 stig, Davíð Arnar Ágústsson 5 stig/7 fráköst.

Fyrri greinHamar tapaði heima
Næsta greinSelfoss tapaði fyrir toppliðinu