Þórsarar byrja vel

Þórsarar byrjuðu á sigri þegar þeir hófu leiktíðina í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. ÍR kom í heimsókn í Þorlákshöfn og lokatölur urðu 93-83.

Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en þegar leið á 1. leikhluta skriðu gestirnir framúr og leiddu 21-27 að tíu mínútum liðnum. Þórsarar byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust yfir, 33-32 þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af honum. Leikurinn var síðan í járnum fram að hálfleik en staðan í leikhléinu var 39-40, gestunum í vil.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en Þórsarar skoruðu síðustu sex stigin í leikhlutanum og leiddu 68-60 þegar sá fjórði hófst. Á lokamínútunum náðu Þórsarar að verjast öllum áhlaupum ÍR-inga og halda sjó í sókninni en að lokum skildu tíu stig liðin að, 93-83.

Tómas Tómasson var bestur í liði Þórsara og skoraði 26 stig. Vincent Sanford átti sömuleiðis fínan leik, skoraði 19 stig og tók 9 fráköst. Nemanja Sovic skoraði 17 stig, Baldur Þór Ragnarsson og Grétar Ingi Erlendsson 9, Oddur Ólafsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 og Emil Karel Einarsson 2.

Fyrri greinMílan tapaði í hörkuleik
Næsta greinGasmengun á Suðurlandi á laugardag og sunnudag