Þórsarar aftur í úrslitaleikinn

Það verða Þór Þorlákshöfn og KR sem leika til úrslita í Maltbikar karla í körfubolta á laugardaginn. Þórsarar unnu Grindavík í undanúrslitum í kvöld í stórkostlegum leik.

Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu mest 11 stiga forskoti. Grindvíkingar gerðu hins vegar áhlaup fyrir hálfleik og náðu að minnka muninn í tvö stig, 46-44.

Þór náði aftur góðu forskoti í 3. leikhluta og héldu því fram í 4. leikhluta. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir var munurinn 11 stig, 85-74. Þá kom geggjaður kafli hjá Grindvíkingum sem jöfnuðu, 95-95, þegar 1:19 mínútur voru eftir. Staðan var enn jöfn þegar 50 sekúndur voru eftir, 98-98, en Þórsarar voru klókari á lokasekúndunum og náðu að halda aftur af Grindvíkingum. Lokatölur 106-98.

Tobin Carberry var langbesti maður vallarins, skoraði 44 stig og tók 16 fráköst fyrir Þór.

Í hinum undanúrslitaleiknum mættust KR og Valur og þar höfðu KR-ingar betur, 67-72. Annað árið í röð mæta Þórsarar því KR-ingum í úrslitaleik bikarkeppninnar og fá því tækifæri til þess að hefna fyrir tapið í fyrra. Leikurinn verður í Laugardalshöllinni klukkan 16:30 á laugardaginn.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 44 stig/16 fráköst, Maciej Baginski 17 stig, Emil Karel Einarsson 15 stig/6 fráköst/5 varin skot, Grétar Ingi Erlendsson 12 stig, Ragnar Örn Bragason 8 stig/4 fráköst, Ólafur Jónsson 6 stig/3 varin skot, Halldór Garðar Hermannsson 4 stig/7 stoðsendingar.

Fyrri greinEngar vísbendingar um saknæman verknað
Næsta greinFjölskyldutímarnir halda áfram í Iðu