Þórsarar áfram í bikarnum – FSu tapaði naumlega

Lið Þórs í Þorlákshöfn er komið í 16-liða úrslit Powerade-bikars karla í körfubolta eftir útisigur á KFÍ í kvöld. FSu tapaði naumlega fyrir Keflavík á heimavelli.

Þórsarar náðu forystunni strax í upphafi leiks á Ísafirði en staðan var 34-42 í hálfleik eftir að KFÍ hafði skoraði sjö síðustu stigin í fyrri hálfleik.

Ísfirðingar jöfnuðu, 43-43, í upphafi síðari hálfleiks og 3. leikhlutinn var í járnum eftir það. Þórsarar girtu sig hins vegar í brók og sigu framúr á síðustu fimm mínútum leiksins og unnu að lokum tíu stiga sigur, 71-81.

Vincent Sanford var besti maður vallarins með 24 stig og 9 fráköst fyrir Þór. Nemanja Sovic skoraði 19 stig, Emil Karel Einarsson 17, Tómas Heiðar Tómasson 8, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 2 og Halldór Garðar Hermannsson 1.

Í Iðu á Selfossi mætti 1. deildarlið FSu úrvalsdeildarliði Keflavíkur. Gestirnir byrjuðu betur og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 32-43 en FSu hafði minnkað muninn niður í eitt stig í upphafi 2. leikhluta, 22-23.

FSu minnkaði forskot Keflvíkinga niður í fjögur stig undir lok 3. leikhluta, 53-57, en Keflvíkingar náðu að halda aftur af heimamönnum í 4. leikhluta og vinna sigur, 78-86.

Collin Pryor fór á kostum í liði FSu, skoraði 34 stig og tók 13 fráköst. Erlendur Stefánsson skoraði 16 stig, Birkir Víðisson 9, Ari Gylfason 8, Geir Helgason 5, Maciej Klimaszewski 4 og Hlynur Hreinsson 2.

Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á morgun og eru Þórsarar í pottinum ásamt Hamarsmönnum.

Fyrri greinLáta gera kvikmynd um hreppinn
Næsta greinÓloft víða á Suðvesturlandi