Þórir og Atli til liðs við Selfoss á ný

Þórir Ólafsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í handknattleik, hefur gengið til liðs við Selfoss. Aftur á móti er óljóst hvort hann muni taka fram skóna á ný þar sem ekkert verið ákveðið um þátttöku hans með liðinu.

Þórir, sem er búsettur á Selfossi, samþykkti hins vegar félagaskipti frá Stjörnunni, sem hann spilaði með á síðasta tímabili, yfir í Selfoss.

Um hálfur annar áratugur er síðan hann lék með Selfoss-liðinu síðast, en hann fór frá Selfossi til Hauka og eftir dvölina þar lék hann sem atvinnumaður í Þýskalandi og í Póllandi í um áratug.

Þórir var ekki eini leikmaðurinn sem skipti yfir til Selfoss í dag, en tveir lykilmenn ÍF Mílunnar, þeir Atli Kristinsson og Gunnar Páll Júlíusson, gerðu það einnig.

Atli og Gunnar verða strax hluti leikmannahópi Selfyssinga til að aðstoða liðið í baráttunni um að komast upp í Olís-deildina. „Ég var að skipta yfir í Selfoss til að hjálpa þeim upp,“ sagði Atli Kristinsson í samtali við sunnlenska.is í dag.

Selfoss er í 3. sæti 1. deildar með 20 stig eftir 13 leiki og er fjórum stigum á eftir Stjörnunni sem er í efsta sæti. Fjölnir er einnig með 20 stig en er í 2. sæti með betri markatölu en Selfyssingar.

Næsti leikur Selfyssinga er eftir viku, föstudaginn 5. febrúar kl. 19:15, gegn ÍH á útivelli.

Fyrri greinSteingerður nýr útibússtjóri
Næsta greinKennsla í matreiðslu og framleiðslu á vorönn