Þór varð af mikilvægum stigum

Þór Þorlákshöfn tapaði mikilvægum stigum í harðri baráttu í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið fékk ÍR í heimsókn. Lokatölur urðu 71-74.

Mjög lítið var skorað í 1. leikhluta en ÍR leiddi að honum loknum, 10-12. Þórsarar girtu sig í brók í 2. leikhluta og höfðu forystuna í hálfleik, 34-28.

Þriðji leikhluti var jafn en Ragnar Bragason setti niður tvo þrista undir lok leikhlutans og tryggði Þór 56-51 forystu þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Heimamenn voru hins vegar ekki með í upphafi 4. leikhluta því ÍR-ingar byrjuðu hann á 3-15 áhlaupi og breyttu stöðunni í 59-66. Þór náði að minnka muninn í tvö stig þegar 20 sekúndur voru eftir en ÍR-ingar héldu haus og kláruðu leikinn á vítalínunni.

Keppnin í Domino’s-deildinni er hrikalega jöfn en Grindavík er með 22 stig í 4. sæti og Njarðvík og Þór Ak eru með 18 stig í 8.-9. sæti og eiga eftir innbyrðis leik. Þar á milli eru ÍR, Þór Þ og Keflavík öll með 20 stig. Tvær umferðir eru eftir af deildinni og það er ljóst að niðurröðunin í úrslitakeppnina mun ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni. Það getur allt gerst!

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 27 stig/10 fráköst, Maciej Baginski 12 stig/4 fráköst, Ólafur Jónsson 11 stig/13 fráköst, Ragnar Bragason 8 stig/4 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Einarsson 7 stig/7 fráköst, Halldór Hermannsson 6 stig.

Fyrri greinHamar með annan fótinn í úrslitakeppninni
Næsta greinGönguskíðabrautir troðnar á Selfossi