Þór úr leik í bikarnum

Þorlákshafnar-Þórsarar eru úr leik í Poweradebikar karla í körfubolta eftir tveggja stiga tap gegn Tindastól í spennuleik á Sauðárkróki.

1. leikhluti var jafn en Þórsarar skoruðu síðustu sex stigin og leiddu 15-20 að honum loknum. Stólarnir komust aftur yfir með því að skora níu fyrstu stigin í 2. leikhluta en Þórsarar voru fljótir að jafna og komast yfir aftur. Þeir héldu forskotinu fram að hálfleik, 36-42.

Þórsarar voru skrefinu á undan allan 3. leikhluta en Tindastóll minnkaði muninn í 47-50. Þá skoruðu Þórsarar átta stig gegn tveimur og staðan var 51-59 þegar þriðja leikhluta lauk.

Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. Tindastóll komst tveimur stigum yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, 74-72, en Darri Hilmarsson jafnaði af vítalínunni, 76-76, þegar 32 sekúndur voru eftir af leiknum. Á síðustu sekúndunum misstu liðin boltann sitt á hvað áður en Darrin Govens braut á Maurice Miller þegar þrettán sekúndur voru eftir. Miller setti bæði vítin niður og kom Stólunum í 78-76 sem urðu lokatölur leiksins. Þórsarar misstu boltann í næstu sókn en náðu honum aftur og fengu síðasta skot leiksins en þriggja stiga tilraun Matthew Hairston klikkaði.

Darrin Govens var bestur hjá Þórsurum með 23 stig, Hairston skoraði 21 og tók 11 fráköst. Guðmundur Jónsson skoraði 12 stig og Blagoj Janev 10.

Fyrri greinÞórsarar útaf – Seinkun í Hveragerði
Næsta greinGOGG sér um bókhaldið