Þór tók Stjörnuna í kennslustund

Þorlákshafnar-Þórsarar voru í gríðarlegu stuði þegar þeir tóku bikarmeistara Stjörnunnar í kennslustund í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 95-76.

Þórsarar voru í stuði strax frá byrjun, skoruðu níu fyrstu stigin og leiddu 26-9 þegar sjö og hálf mínúta var liðin af leiknum. Staðan eftir 1. leikhluta var 32-15.

Heimamenn voru ekki hættir því þeir skoruðu fimmtán fyrstu stigin í 2. leikhluta og leiddu 47-15 þegar 2. leikhluti var hálfnaður. Allir í húsinu voru komnir með hökuna niður í gólf, slíkir voru yfirburðir Þórsara gegn bikarmeisturunum. Stjarnan rétti þó hlut sinn af undir lok fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi var 54:30.

Stjarnan byrjaði betur í seinni hálfleik og minnkaði muninn í 57-44 en Þórsarar spýttu þá í lófana og 15-2 áhlaup undir lok 3. leikhluta tryggði þeim 30 stiga forystu, 81-51, undir lok leikhlutans.

Gestirnir fengu til sárabóta að að eiga síðasta fjórðunginn og unnu hann 14-25 en þrátt fyrir það sigruðu Þórsarar með nítján stiga mun. 95-76.

Tómas Heiðar Tómasson var stigahæstur Þórsara með 20 stig, Mike Cook Jr. skoraði 19 og Baldur Þór Ragnarsson 16 en maður leiksins var Ragnar Nathanaelsson með 14 stig, 10 fráköst og 3 varin skot. Nemanja Sovic skoraði 10 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Halldór Garðar Hermannsson 6 og Vilhjálmur Atli Björnsson 2.

Mýrdælingurinn Justin Shouse skoraði 19 stig fyrir Stjörnuna, Selfyssingurinn Sæmundur Valdimarsson skoraði 6 stig fyrir Stjörnuna og Marvin bróðir hans 5.

Fyrri greinVilja þjóðarleikvanginn í frjálsum á Selfoss
Næsta greinReykræstu hús á Selfossi