Þór tapaði í framlengingu

Þór og Snæfell höfðu sætaskipti í Iceland Express-deild karla í kvöld. Snæfell lagði Þór í Hólminum í framlengdum leik 93-86 og fór upp í 5. sætið. Snæfell hefur betur í innbyrðis leikjum liðanna.

Þórsarar mættu níu alls til leiks eldhressir og komust í 0-8 í upphafi leiks áður en Snæfell náði að skora stig. Allt var ofan í hjá Þór og ekkert hjá Snæfelli sem komu litlum vörnum við þegar gestirnir voru komnir í 2-15 þar sem Govens og Hairston voru komnir með fimm stig hvor. Snæfell náði að krafsa sig nær á lokamínútum 1. leikhluta en staðan að honuim loknum var 15-20 fyrir Þór.

Snæfell náði með krafti að koma sér í betri stöðu í 2. leikhluta og komust fljótt í 30-22. Þórsarar náðu sér á strik og jöfnuðu 33-33 þar sem Hairston, Guðmundur Jónsson og Govens voru fremstir sinna manna. Staðan í hálfleik var 39-37.

Snæfell náði 11 stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 52-41, og keyrðu vel á Þór sem varð lítið úr sóknum sínum á kafla gegn vörn Snæfells og hentu boltum beint í hendur heimamanna. Þórsarar tóku svo við sér og minnkuðu muninn í 54-51 en staðan var 58-52 fyrir Snæfell eftir þriðja hluta.

Þórsarar komust yfir með látum, 58-59, í upphafi fjórða hluta og leikurinn strax jafn. Gestirnir náðu að halda naumri forystu um tíma þar sem lítið var skorað og staðan 63-66. Lokamínúturnar voru dramatískar þar sem liðin skiptust á að skora og mikið af vítalínunni. Guðmundur Jónsson var drjúgur fyrir Þór og kom þeim yfir 74-75 á lokamínútunni. Snæfell missti boltann þegar 7 sekúndur voru eftir og brutu á Govens sem fór á vítalínuna og setti fyrra vítið niður. Staðan var þá 74-76 en Snæfell náði frákastinu og brunaði í tveggja stiga sókn, 76-76. Þórsarar áttu síðustu sóknina en komu boltanum ekki í körfuna og framlenging því staðreynd.

Snæfell skoraði fimm fyrstu stigin í framlengingunni og juku svo forskotið í átta stig, 88-80. Govens átti að taka stóru skotin og náði einu í stöðuna 88-83 en Snæfell sigldi skútunni nokkuð örugglega í höfn undir lokin og lokatölur urðu 92-83.

Darrin Govens var stigahæstur hjá Þór með 27 stig en besti maður vallarins var Matthew Hairston með 20 stig og 21 frákast. Guðmundur Jónsson skoraði 16 stig og Blagoj Janev 13.

Fyrri greinÞungu blómakeri stolið
Næsta greinFært á hjólastól yfir Markarfljót