Þór tapaði í framlengdum leik

Þór Þorlákshöfn tapaði 95-94 gegn KR eftir framlengdan leik í Lengjubikar karla í körfubolta í DHL-höllinni í kvöld.

KR-ingar byrjuðu betur og komust í 10-5 en þá tóku Þórsarar leikinn í sínar hendur og leiddu að loknum 1. leikhluta, 20-28. Forskotið hefði getað verið meira því Michael Ringgold misnotaði fjögur vítaskot í röð undir lok leikhlutans. KR-ingar eltu Þórsara allan 2. leikhluta en Þór náði mest níu stiga forskoti undir lokin, 33-42. KR skoraði hins vegar síðustu sex stigin í hálfleiknum og staðan var 39-42 í hálfleik.

Heimamenn voru sprækari í 3. leikhluta og komust fljótlega yfir en Þórsarar fylgdu þeim eins og skugginn og staðan var 63-59 að loknum 3. leikhluta. Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi en Þór komst yfir þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af honum, 68-69. Eftir það skiptust liðin á um að hafa forystuna og þegar lokamínútan rann upp leiddi KR 82-79. Grétar Ingi Erlendsson jafnaði leikinn með þriggja stiga skoti fyrir Þór þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum og tryggði framlengingu.

Í framlengingunni var jafnt á flestum tölum þangað til Þór komst í 90-94 þegar rúm ein mínúta var eftir. Þórsarar skoruðu hins vegar ekki meira og í stöðunni 93-94 klikkaði Marko Latinovic á tveimur vítaskotum fyrir Þór með átta sekúndur eftir á klukkunni. KR brunaði í sókn og tryggði sér sigurinn með sniðskoti á lokasekúndunni.

Tölfræði Þórs: Darrin Govens 29 stig/10 fráköst/8 stoðsendingar, Michael Ringgold 20/7 fráköst, Guðmundur Jónsson 13, Marko Latinovic 13/8 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 8/9 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 6, Darri Hilmarsson 4/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 1.

Fyrri greinNaumt tap FSu gegn Hetti
Næsta greinHamar tapaði í Hólminum