Þór og FSu í 8-liða úrslit

Lið Þórs Þ og FSu eru komin áfram í 8-liða úrslit Maltbikars karla í körfubolta eftir sigra í 16-liða úrslitunum í dag.

Þórsarar sóttu Keflvíkinga heim í úrvalsdeildarslag. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi 42-41. Þórsarar voru mun sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur, 70-93.

Tobin Carberry var í góðum gír í dag, skoraði 34 stig fyrir Þór og tók 9 fráköst. Emil Einarsson skoraði 18 stig, Halldór Hermannsson 13 og Ólafur Jónsson 10.

Í Iðu mætti FSu 2. deildarliði SIndra frá Hornafirði. FSu hafði frumkvæðið stærstan hluta leiksins en gestirnir voru aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 35-28 en í upphafi síðari hálfleiks náðu gestirnir að komst yfir, 37-38. Það var ekki fyrr en í síðasta leikhlutanum að FSu-liðið girti sig í brók og sigraði að lokum örugglega, 81-59.

Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu með 25 stig og 13 fráköst. Ari Gylfason skoraði 23 stig og tók 7 fráköst og Hlynur Hreinsson skoraði 11 stig.

Dregið verður í 8-liða úrslit Maltbikarsins í hádeginu næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinGolfmót á geggjuðum velli í desember
Næsta greinHvergerðingar „Naktir í náttúrunni“