Þór mætir Snæfelli í úrslitakeppninni

Þórsarar mæta Snæfelli í 8-liða úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta. Þór vann Hauka á útivelli í kvöld á meðan Stjarnan tapaði sínum leik og færðust Þórsarar því upp í 3. sætið.

Þórsarar höfðu frumkvæðið stærstan hluta leiksins gegn Haukum og leiddu í hálfleik, 41-48. Aðeins dró saman með liðunum í 3. leikhluta en Þórsarar kláruðu leikinn eins og menn í síðasta fjórðungnum.

Darrin Govens var frábær í liði Þórs með þrefalda tvennu, 26 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Nafni hans, Darri Hilmarsson, átti einnig mjög góðan leik, skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og stal 7 boltum. Guðmundur Jónsson skoraði 18 stig, Blagoj Janev 14 auk þess að taka 11 fráköst.

Úrslitakeppnin hefst í lok næstu viku.

Fyrri greinÞrettán milljón króna framlag í íþróttasvæðið
Næsta greinUngfrú Suðurland: Una Rós