Þór lagði Þór í spennuleik

Þór Þorlákshöfn fékk nafna sína í Þór Akureyri í heimsókn í kvöld í Domino's-deild karla í körfubolta. Það var hin mesta skemmtun.

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og leiddu eftir 1. leikhluta, 20-14, en gestirnir svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 36-35 í leikhléinu.

Þriðji leikhluti var í járnum og staðan var jöfn þegar síðasti fjórðungurinn hófst, 56-56.

Akureyringar skoruðu fyrstu sex stigin í 4. leikhluta og héldu forystunni allt þar til tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þá var staðan 65-68 en það voru heimamenn sem skoruðu síðustu átta stigin í leiknum og tryggðu sér sigurinn.

Þór Þ. endurheimti þar með 4. sætið og hefur nú 20 stig, en Þór Ak. er í 7. sætinu með 18 stig.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 31 stig/16 fráköst, Ólafur Jónsson 12 stig/10 fráköst, Maciej Baginski 11 stig/7 fráköst, Halldór Hermannsson 7 stig/4 fráköst, Emil Einarsson 6 stig/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6 stig.

Fyrri greinPachu skoraði á afmælisdaginn
Næsta greinEldur í garðyrkjustöð í Hveragerði