„Þetta var stöngin inn í kvöld“

„Ég er gríðarlega ánægður, það er langt síðan við unnum leik og það var kominn tími á það,“ sagði Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR, eftir að liðið sigraði KFS í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við vorum farnir að sogast hættulega nærri neðstu liðunum og þetta rífur okkur aðeins frá þeim. Þó að það sé bil niður í neðstu liðin þá verðum við að halda áfram að vinna okkar leiki og þá erum við í góðum málum,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

KFR vann síðast deildarleik þann 29. maí en Guðmundur segir að það hafi ekki mikið breyst hjá liðinu fyrir leikinn í kvöld. „Þetta var stöngin inn í kvöld en stöngin út í síðustu leikjum, þó að við höfum bæði átt sláar- og stangarskot í kvöld,“ sagði Guðmundur léttur.

„Það er mikið hungur hjá okkur að vinna þessa tvo leiki fyrir fríið um verslunarmannahelgina og flott hjá okkur að taka sex stig á móti KFS í sumar og sýna þeim hvað er besta liðið hér á svæðinu.“

Leikurinn var jafn í upphafi og bæði lið náðu að skora á fyrstu tíu mínútunum. Helgi Ármannsson kom KFR yfir strax á 3. mínútu en Eyjamenn voru snöggir að svara og jöfnuðu metin á 10. mínútu með marki Sölva Víðissonar.

Rangæingar áttu góðan sprett í kjölfarið og virtust líklegri til þess að bæta við og sú varð raunin á 28. mínútu þegar Guðmundur Garðar skoraði glæsilegt mark eftir sendingu innfyrir frá Goran Jovanovski.

Staðan var 2-1 í hálfleik og jafnræðið hélt áfram í síðari hálfleik. Eyjamenn voru þó hættulegri í sínum sóknaraðgerðum og virtust líklegri til þess að skora framan af seinni hálfleiknum. Rangæingar fengu ekki mörg marktækifæri og það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Guðmundur Garðar tryggði sínum mönnum 3-1 sigur með góðu skoti úr vítateignum.

Með sigrinum fór KFR uppfyrir KFS og situr nú í 6. sæti deildarinnar með 13 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Berserkjum á útivelli að viku liðinni.

Fyrri greinFéll í gil á Fimmvörðuhálsi
Næsta greinÁrborgarar gáfu Létti sigurmarkið