„Þetta var erfið fæðing“

Selfoss vann virkilega sætan sigur á Val í Olís-deild karla í handbolta á heimavelli í kvöld, 29-28, og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

„Við vorum lengi í gang og þetta var erfið fæðing. Við vorum óhressir með vörnina í fyrri hálfleik en ég er ánægður með að við sýndum karakter og löguðum varnarleikinn. Þetta var bara hrikalega jafnt og féll með okkur í lokin,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

Valsmenn voru betri framan af leik og leiddu í leikhléi, 14-16. Seinni hálfleikur var jafn og spennandi en Valur hafði áfram undirtökin og leiddi með þremur mörkum þegar tæpar tólf mínútur voru eftir, 20-23.

Þá skoruðu Selfyssingar fjögur mörk í röð og við tók æsilegur lokakafli. Selfoss skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði sér eins marks sigur. Valur fékk átján sekúndur til þess að jafna en náðu ekki skoti áður en lokaflautið gall.

Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 24 stig og mætir toppliði FH í lokaumferðinni.

Hergeir Grímsson skoraði 8 mörk fyrir Selfoss, Teitur Örn Einarsson 8/2, Elvar Örn Jónsson 6/1, Guðni Ingvarsson 4, Einar Sverrisson 2 og Alexander Egan 1.

Einar Vilmundarson var góður í seinni hálfleiknum í markinu hjá Selfyssingum og varði 10/1 skot. Helgi Hlynsson varði 3/1 skot.

Fyrri greinStofnfundur hollvinasamtaka um menningarsalinn
Næsta greinUppsveitaliðin bæði upp um deild