„Þetta var bara til háborinnar skammar“

Sævar Þór Gíslason, fyrirliði Selfoss, var ómyrkur í máli þegar sunnlenska.is spjallaði við hann eftir leik Fylkis og Selfoss.

„Leikur okkar einkenndist af algjöru áhugaleysi og metnaðarleysi. Þetta var bara til háborinnar skammar og miðað við þessa frammistöðu eigum við bara að vera í 1. eða 2. deild,“ sagði Sævar í leikslok.

„Við byrjum leikinn af krafti fyrstu tíu mínúturnar og áttum þá að vera búnir að skora fleiri en eitt mark. Þetta slapp í fyrri hálfleik en þegar við fáum á okkur annað markið þá er eins og liðið brotni og við fáum þriðja markið á okkur strax í kjölfarið. Við þurfum greinilega að fara að taka okkur almennilega saman í andlitinu og gera hlutina eins og lið. Við vorum ekki að gera það í dag og ég held að þetta hafi verið slakasta frammistaða liðsins í nokkur ár,“ sagði Sævar.

Guðmundur Benediktsson gerði þrefalda skiptingu á 66. mínútu og Sævar var einn þeirra sem var tekinn af velli. Hann virtist ekki sáttur og grýtti upphitunartreyju sinni í jörðina. „Maður er aldrei sáttur þegar maður er tekinn útaf en þetta er ákvörðun þjálfarans. Ég var óánægður með skiptinguna, frammistöðu mína og frammistöðu liðsins. Það var ekkert gott við þetta,“ sagði Sævar að lokum.

Fyrri greinFylkir-Selfoss 5-2
Næsta greinFjóla Signý þrefaldur meistari