„Þetta var æðislegt mark“

Framherjinn Sævar Þór Gíslason er markahæsti leikmaður Selfoss, Fylkis og ÍR í efstu deild karla í knattspyrnu.

Sævar klíndi inn stórglæsilegu marki í leiknum gegn Grindavík í gær. Hann varð því markahæstur Selfyssinga í deildinni í sumar – og dugðu fimm mörk til þess.

Sævar lék með ÍR í efstu deild árið 1998 og varð þá markahæstur með 6 mörk. Árin 2001 til 2006 skoraði hann svo 41 mark fyrir Fylki í efstu deild.

Markahrókurinn var ánægður með markið sem hann skoraði í gær. „Já, þetta var æðislegt mark, gaman að smellhitta hann svona. Ingþór var búinn að reyna þrjú skot á undan mér og ég ákvað bara að kenna honum þetta,“ sagði Sævar og glotti.

„Það að vera markakóngur þriggja liða í efstu deild er eitthvað sem ég er mjög stoltur af. Án þess að hafa skoðað það nokkuð þá hugsa ég að þetta sé einstakt.“

Fyrri greinTætingsleg og tilkomumikil bylgjuský
Næsta greinVilja fulltrúa í Þingvallanefnd