„Þetta kom mér frekar mikið á óvart“

Knattspyrnumaðurinn Sindri Pálmason varð í dag fjórði Selfyssingurinn á skömmum tíma sem fer úr í atvinnumennsku. Hann er hins vegar sá yngsti hingað til, sautján ára gamall.

Selfoss samþykkti í dag tilboð dönsku bikarmeistaranna í Esbjerg í Sindra, en hann fór þangað til reynslu í október síðastliðnum. Sindri vissi af áhuga Dananna en það kom honum hins vegar mjög á óvart þegar hann frétti í dag að hann væri á leið til danska liðsins.

„Ég vissi að þeir voru búnir að ræða eitthvað við Selfoss en ég hafði ekki hugmynd um að það væri komið tilboð, fyrr en bara í hádeginu í dag, þannig að þetta kom mér frekar mikið á óvart,“ sagði Sindri léttur í lundu þegar sunnlenska.is spjallaði við hann í kvöld.

„Ég æfði með Esbjerg í október og leist strax mjög vel á klúbbinn. Þetta er flottur klúbbur og frábært tækifæri fyrir mig. Ég held að ég passi vel inn í þetta hjá þeim, þetta snýst bara um fótbolta og ekkert annað,“ segir Sindri en hann mun æfa með U19 ára liði Esbjerg og líklega einnig spila með varaliði félagsins.

„Annars veit ég í raun ekki mikið um þetta, það er ekki neinn samningur kominn á borðið en ég reikna með að ég fari út í janúar.“

Draumurinn er því að rætast hjá Sindra sem hefur alla tíð stefnt að því að komast í atvinnumennskuna. „Ég hef stefnt að þessu frá því að ég byrjaði í fótbolta, frá því að ég var fimm eða sex ára hefur þetta alltaf verið markmiðið.“

Fyrr í vikunni skrifaði Viðar Örn Kjartansson undir samning við Vålerenga og í lok árs í fyrra sömdu Jón Daði Böðvarsson við Viking og Guðmundur Þórarinsson við Sarpsborg 08. Sindri er því fjórði uppaldi Selfyssingurinn á rúmu ári sem fer út í atvinnumennskuna.

Þar áður hafði einn leikmaður frá Selfossi farið í atvinnumennskuna en Páll E. Guðmundsson, móðurbróðir Guðmundar Þórarinssonar, lék með Ionikos í Grikklandi og Raufoss í Noregi 1997-1998.

Fyrri greinHamarskot fékk styrk úr minningarsjóði Sissu
Næsta greinJötunn vélar opna verslun í Reykjavík