„Þetta er léttir“

Selfyssingar unnu langþráðan sigur í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar Njarðvík kom í heimsókn. Lokatölur urðu 4-1.

„Þetta er léttir, gott að vinna og gott að vinna svona sterkt. Við erum búnir að vera að taka okkur aðeins í gegn og uppgötva gildin upp á nýtt. Liðið er samheldið og gott og undirbúningurinn fyrir leikinn var mjög góður,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar voru líklegri til að skora framan af. Kristófer Páll Viðarsson þrumaði hins vegar blautri tusku í andlitið á þeim á 13. mínútu og kom Selfyssingum í 1-0, sem reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Selfyssingar léku hins vegar á als oddi í seinni hálfleik og lokuðu leiknum nánast á fyrsta korterinu. Strax á 48. mínútu kom Gilles Ondo Selfyssingum í 2-0 og á 60. mínútu skoraði Pachu frábært mark með skoti fyrir utan teig.

Njarðvíkingar voru þó nálægt því að skjóta sér inn í leikinn því þeir minnkuðu muninn á 67. mínútu og þremur mínútum síðar fór vítaspyrna í súginn hjá gestunum.

Selfyssingar héldu haus og á lokamínútunni bætti Kenan Turudija við fjórða marki Selfoss sem vann sinn fyrsta sigur í deildinni síðan 3. júní.

Með sigrinum hafði Selfoss sætaskipti við Njarðvík og lyfti sér upp í 9. sætið með 11 stig. Njarðvík hefur 10 stig í 10. sæti.

Fyrri greinÆgir náði ekki að brjóta Vængina
Næsta greinÍbúakosning um miðbæjarskipulagið verður 18. ágúst