„Þetta er bara ótrúlega spennandi“

Í dag var dregið í riðla fyrir Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu í Frakklandi næsta sumar. Landsliðsmönnunum frá Selfossi líst vel á riðilinn.

Ísland er í riðli með Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi.

Jón Daði Böðvarsson var staddur í Tælandi þegar sunnlenska.is heyrði í honum nú síðdegis.

„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er erfiður riðill en hann hefði getað verið töluvert erfiðari. Það er gaman að fá Portúgal, sem er svona stærsta þjóðin, með Cristiano Ronaldo í fararbroddi. Þetta er bara ótrúlega spennandi,“ sagði Jón Daði sem viðurkenndi að hann hefði alveg verið til í að mæta Englandi eða Ítalíu.

„Sérstaklega Englandi. Maður ólst náttúrulega upp við að horfa á enska boltann og ég hef alltaf haldið með þeim á öllum stórmótum.“

Jón Daði telur að Ísland eigi ágæta möguleika á að komast áfram upp úr riðlinum.

„Já, mér finnst það. Ef við náum að halda sama skipulagi og spilamennsku sem við höfum haft. Við eigum séns gegn öllum þessum þjóðum. Nú er bara spurningin að mæta þarna hungraðir og halda áfram að bæta okkur. Ég hlakka mikið til og vildi helst geta spólað áfram í tíma.“

„Að mæta Ronaldo – get ekki beðið um meira“
Viðar Örn Kjartansson var staddur í Las Vegas þegar sunnlenska.is náði tali af honum, en hann ætlar að fylgjast með bardaga Gunnars Nelson og Demian Maia á MGM Grand hótelinu í kvöld.

Viðar telur möguleika Íslands góða á EM næsta sumar.

„Riðillinn er alveg þokkalegur. Austurríska liðið er mjög sterkt en ég held að við höfum fengið fínan drátt og eigum góðan séns á að komast uppúr riðlinum. Það hefði auðvitað verið draumur að fá England. En að fá að spila á móti Cristiano Ronaldo – ég get ekki beðið um meira,“ sagði Viðar.

„Riðillinn hefði klárlega getað verið verri, en þetta eru allt mjög góð lið sem við mætum. Þrátt fyrir það hef ég fulla trú á því að við komumst upp úr riðlinum,“ sagði Viðar Örn að lokum.

Leikir Íslands:
14. júní: Ísland – Portúgal (Saint Etienne – Stade Geoffroy Guichard)
18. júní: Ísland – Ungverjaland (Marseille – Stade Vélodrome)
22. júní: Ísland – Austurríki (París – Stade de France)

Leikstaðir:
Saint Etienne – Stade Geoffroy Guichard – 42.000 áhorfendur
Marseille – Stade Vélodrome – 67.000 áhorfendur
París – Stade de France – 80.000 áhorfendur

Fyrri greinGlæsileg hátíðarsýning á Selfossi
Næsta greinMikill fjöldi heilsaði upp á jólasveinana