Þakklát fyrir að hafa boðist þetta tækifæri

Knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir er komin til Ítalíu en hún hefur samið við ítalska félagið S.S. Chieti Calcio og mun leika með því í vetur.

Kristrún var lykilmaður í liði Selfoss í sumar þegar liðið endurheimti sæti sitt í Pepsi-deildinni en hún hefur verið valin leikmaður ársins hjá Selfossi undanfarin tvö keppnistímabil. Hún segir fyrstu dagana á Ítalíu hafa verið góða.

„Mér líst bara mjög vel á þetta nýja lið, stelpurnar eru hlýlegar, háværar og það er ávallt stutt í smá sprell. Þjálfarinn vill allt fyrir mig gera og þrátt fyrir tungumálaerfiðleika þá eru allir til þjónustu reiðubúnir,“ segir Kristrún og bætir við að hún hafi ekki vitað mikið um félagið áður en hún fór út.

„Ég veit ekki mikið um Chieti Calcio sem félag en ég veit að það er mikið hjarta á bak við kvennaliðið. Þær féllu í fyrra niður í Serie B og eru staðráðnar í því að koma sér aftur upp. Ég kannast smá við þá tilfinningu.“

Kristrún er önnur knattspyrnukonan í sögu Selfoss til þess að fara erlendis í atvinnumennsku, á eftir Dagnýju Brynjarsdóttur sem fór frá Selfossi til Bayern München árið 2015. Kristrún segir að hugmyndin um atvinnumennsku hafi verið fjarlægur draumur.

„Þetta tækifæri er mjög spennandi að mínu mati og ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa boðist það. Mér finnst hugmyndin á bak við það sem ég er að gera ennþá frekar súrrealísk og skrítið að tala um atvinnumennsku. En það að fá borgað fyrir að gera eitthvað sem maður elskar og flokkast sem áhugamál er líklegast eitthvað sem alla dreymir um, og þetta er klárlega eitthvað sem ég hef hugsað um,“ segir Kristrún að lokum.

Keppni í Serie B er riðlaskipt og lýkur með úrslitakeppni í maí. Chieti hefur leikið tvo leiki í deildinni í vetur og er með þrjú stig, en næsti leikur liðsins er gegn Lazio á heimavelli næstkomandi sunnudag.

Fyrri greinNúmer klippt af fimm bílum
Næsta greinSelfosstónar í kirkjunni í kvöld