„Það verður ekkert gefins hérna“

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sína menn sem sigruðu á Ragnarsmótinu og áttu toppleik gegn Haukum í dag.

„Þetta var afgerandi besti leikur okkar á undirbúningstímabilinu og ég er kannski búinn að bíða dálítið eftir því að sjá þessa frammistöðu hjá liðinu. Það kom í dag og nú byggjum við ofan á það,“ sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Haukarnir eru gríðarlega góðir og þeir voru búnir að vinna sína leiki sannfærandi á mótinu. Þó að þetta sé æfingamót þá var þetta smá mælikvarði á hvernig okkur gengi gegn besta liði landsins og nú sjáum við að við getum unnið þá. Menn þurftu líka toppframmistöðu til þess.“

Sebastian segir að sigurinn á Ragnarsmótinu gefi tóninn fyrir komandi átök á Íslandsmótinu og mikilvægt sé að ná góðum úrslitum á heimavelli. „Ef einhver ætlar að taka stig hér á Selfossi þá verður hann að berjast fyrir því. Það verður ekkert gefins hérna. Við vonum að liðin átti sig á því að þegar þau koma á Selfoss þá eru þau að fara að tapa.“

Nú er tæpur mánuður í að Íslandsmótið hefjist og þjálfarinn segir að liðið sé statt þar sem hann vill hafa það á undirbúningstímabilinu. „Við vorum ofboðslega misjafnir á þessu móti. Þetta var upp og niður á móti HK og í leiknum gegn FH vorum við í utandeildarklassa í fyrri hálfleik en náðum að snúa því við á vilja og hörku. En í dag sýndum við góðan handbolta. Það er stutt í mót og þetta er allt á áætlun hjá okkur. Svo kemur bara í ljós hvort það er rétt áætlun,“ sagði Sebastian að lokum.

Fyrri greinFyrsti sigur Selfoss í 20 ár
Næsta greinHver var þessi Kolgrímur?