„Það reiknar enginn með okkur“

Ingó og Veðurguðirnir taka þátt í að kynna Pepsi-deildina í knattspyrnu en söngvari sveitarinnar leikur sem kunnugt er með Selfoss.

Fyrsti deildarleikur Selfyssinga er eftir rétta viku. Á Selfossi eru menn gríðarspenntir að sjá hvernig liðið mun spjara sig en leikmenn Selfoss flestir litla reynslu af úrvalsdeildarfótbolta. Augu margra munu beinast að Ingólfi Þórarinssyni sem á landsvísu er þekktari fyrir gítarspil og söng þó að heimamenn þekki vel til hæfileika hans inni á fótboltavellinum. Í einni af auglýsingum Pepsi-deildarinnar gerir söngvarinn vinsæli létt grín að sjálfum sér en hann segir fótboltann hafa forgang í sumar og spilamennskan verður í öðru sæti.

„Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í þessari auglýsingagerð. Strákarnir voru til í grínið og fannst þetta sniðugt, enda vinna þeir leiksigur þarna. Annars undirstrikar þetta bara það sem menn eru búnir að segja, það býst enginn við því að ég geti neitt í fótbolta,“ sagði Ingólfur í samtali við sunnlenska.is. „Ég held reyndar að það geti reynst Selfossliðinu styrkur að það reiknar enginn með okkur. Allir helstu knattspyrnuspekingar eru búnir að skrifa okkur beint niður aftur.“

Ingólfur segir að deildarkeppnin leggist ágætlega í sig og er bjartsýnn fyrir hönd Selfyssinga. „Ég hlakka bara mikið til að mótið byrji. Ég er reyndar lítillega meiddur núna sem eru gríðarleg vonbrigði en ég vonast samt til þess að vera tilbúinn fyrir fyrsta leik,“ sagði Ingólfur að lokum.

Auglýsinguna má sjá hér á Youtube.

Fyrri greinBullandi veiði í flestum ám í grennd við gosið
Næsta greinJökulhaftið við það að bresta