„Það eru nánast allir í fótbolta“

Tómas Þóroddsson heimsótti Laugarvatn á dögunum fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands og færði knattspyrnuiðkendum á Laugarvatni og í Reykholti góðar gjafir frá sambandinu.

Um 70 krakkar á aldrinum 5 til 14 ára æfa knattspyrnu hjá Ungmennafélagi Laugdæla og Ungmennafélagi Biskupstungna.

„Við gáfum þeim bolta, vesti og keilur. Ég fékk virkilega góðar móttökur hjá þessum hressu krökkum. Það er mikill uppgangur í knattspyrnunni á þessu svæði og unnið gott starf hjá félögunum. Ferðaþjónustan gefur líka sóknarfæri en íbúum er að fjölga á svæðinu og krakkarnir vilja æfa fótbolta. Það er ótrúlega hátt hlutfall að æfa á Laugarvatni og Reykholti, það eru nánast allir í fótbolta,“ sagði Tómas í samtali við sunnlenska.is, en hann er í útbreiðslu og unglinganefnd kvenna hjá KSÍ.

„Ég spurði krakkana hvort þau vissu hvað KSÍ væri og það stóð ekki á svarinu „já, eigandi landsliðsins“ – mjög gott svar,“ sagði Tómas ennfremur og bætti við að uppáhalds landsliðsmenn flestra krakkanna væru Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson.

Boltarnir, keilurnar og vestin koma að góðum notum við knattspyrnuæfingarnar en Guðni Sighvatsson og Gústaf Sæland tóku við gjöfinni ásamt krökkunum.

Fyrri greinTvö HSK met á Vormóti ÍR
Næsta greinRatsjárstöð á Þingvöllum