„Það er nóg að vinna leikinn“

„Þetta var erfitt, eins og við vissum. Þeir voru þrautskipulagðir og lögðu mikið á sig,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, eftir 2-1 sigur á Njarðvík í bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld.

„Njarðvíkingar eru vel mannaðir og þeir lögðu mikið upp úr föstum leikatriðum sem við höfum ekki verið allt of sterkir í. Það var gott að fá æfingu í því í dag,“ sagði Logi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Það gekk ekkert hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik þó að þeir hafi verið meira með boltann en Njarðvík komst yfir á 33. mínútu, nokkuð gegn gangi leiksins. Logi var ekki ánægður með framlag sinna manna í fyrri hálfleik.

„Þetta er stundum þannig með íþróttamanninn að hann ætlar að athuga hvað hann sleppur með lítið framlag til að vinna leikinn. Svo vakna menn upp við vondan draum þegar staðan er orðin 1-0 fyrir mótherjann og þá þarf að bíta í skjaldarrendur og koma sér framar á völlinn.

Við sköpuðum aragrúa marktækifæra og sigurinn hefði þessvegna getað orðið stærri en þetta dugar. Eðli keppninnar er þannig að það er nóg að vinna leikinn.“

Selfyssingar eru komnir í fyrsta skipti í 16-liða úrslit bikarkeppninnar í 22 ár en Logi segist ekki eiga neina óskamótherja í næstu umferð.

„Það hefur aldrei verið mjög heillavænlegt að vera með slíkar beiðnir, nema þetta klassíska að það væri voða notalegt að fá heimaleik. Þetta er skemmtileg keppni og auðvitað viljum við komast eins langt og nokkur kostur er. Við sjáum bara á mánudaginn hverja við þurfum að leggja að velli næst.“

Fyrri greinGlæsileg reiðhöll Eldhesta vígð
Næsta greinSögulegur sigur Selfyssinga