„Það er ekki nóg að djöflast bara“

„Mér fannst þetta gott í 25 mínútur,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, eftir 88-77 sigur á FSu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

„Þetta var gott framan af en það voru nokkur varnaratriði sem ég var langt frá því að vera sáttur með í fyrri hálfleik. Það vantaði ekki að menn væru að leggja sig fram en menn verða að spila vörnina meira með hausnum. Það er ekki nóg að djöflast bara, menn verða að gera þetta hugsandi og lesa aðstæður og við vorum oft á tíðum ekki að gera það,“ sagði Benedikt við sunnlenska.is eftir leik..

„Síðasta korterið, þar sem við vorum komnir 29 stigum yfir, fórum við að vera linir í vörninni og þeir ýttu okkur út úr stöðum í sókninni. Við áttum að drepa leikinn og ekki hleypa honum út í þetta,“ sagði Benedikt en FSu liðið kom honum ekki á óvart í seinni hálfleik.

„Þetta eru sprækir strákar með stórt hjarta og þeir láta ekkert vaða yfir sig. Um leið og þú slærð slöku við þá nýta þeir sér það.“

Þórsarar eru ósigraðir á toppi 1. deildarinnar en Benedikt segir liðið eiga langt í land með að fínstilla sinn leik. „Guð hjálpi þér, þetta er langt frá því að vera orðið fullkomið. Byrjunin er góð hjá okkur en dagskráin hefur verið þannig að við höfum verið að mæta liðum sem ekki er spáð í toppbaráttuna. Það skýrir hluta af því að við séum 3-0.“

Fyrri grein„Trommurnar fóru í taugarnar á okkur“
Næsta greinRysjóttur vetur framundan