„Það þýðir lítið að væla yfir dómgæslunni“

KFR fékk botnlið Víðis í heimsókn í kvöld í 3. deild karla í knattspyrnu. Gestirnir fóru með sigur af hólmi og unnu þar með sinn fyrsta leik í deildinni í sumar.

„Þetta var slakur leikur af okkar hálfu og það er lítið meira um það að segja. Dómgæslan bætti ekki úr skák, en það þýðir lítið að væla yfir dómgæslunni í þessari deild. Hún er algjörlega happa og glappa. Varnarleikurinn hefur verið góður hjá okkur í sumar en við höfum verið í veseni í sókninni. Við þurfum bara að leggjast yfir það á æfingum og breyta eitthvað til,“ sagði Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Eftir góða byrjun hefur KFR verið að fatast flugið í deildinni.

„Hlutirnir duttu með okkur í upphafi móts en þeir hafa ekki verið að detta með okkur í síðustu leikjum. Ég hef ekki neinar áhyggjur af því þó við séum að tapa fyrir botnliðinu hérna í kvöld. Við þurfum bara að rífa okkur upp og sækja þrjú stig á móti Einherja á Vopnafirði í næsta leik,“ sagði Guðmundur ennfremur.

Leikurinn var rólegur framan af og fátt um færi en á 23. mínútu varði Gunnar Már Hallgrímsson, markvörður KFR, frábærlega skot Víðismanna úr vítateignum. Fimm mínútum síðar var Hjalti Kristinsson við það að sleppa innfyrir hinu megin en Víðismenn náðu að komast fyrir skot hans og bægja knettinum í hornspyrnu á síðustu stundu.

Á 38. mínútu stöðvuðu Víðismenn hraða sókn KFR með því að brjóta á Hauki Gunnarssyni. Víðismaðurinn brotlegi var með gult spjald á bakinu og hefði verðskuldað átt að fá annað gult þarna en dómari leiksins sá ekki ástæðu til þess að lyfta spjaldi. Þetta var langt frá því að vera síðasta umdeilda ákvörðun dómarans í leiknum og án þess að það hafi hallað að ráði á annað hvort liðið þá var frammistaða tríósins í þessum leik ekki boðleg.

Staðan var 0-0 í hálfleik en Víðismenn komust yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, með skoti af stuttu færi eftir mistök í vörn KFR.

Tíu mínútum síðar var sóknarmaður Víðis við það að sleppa í gegn þegar Birkir Pétursson braut á honum. Dómarinn gaf Birki beint rautt spjald og mat það líklega svo að hann hafi rænt Víðismanninn upplögðu færi, þrátt fyrir að Goran Jovanovski væri einnig á vettvangi í vörninni. Úr aukaspyrnunni áttu Víðismenn þrumuskot í stöngina.

KFR tefldi á tæpasta vað í vörninni eftir að Birkir hafði verið sendur af velli og Víðismenn voru mun nær því að bæta við mörkum. Eina ógnin sem stafaði af sóknarleik KFR var þegar liðið fékk föst leikatriði og náði þá að skapa einhvern usla, en annars vantaði allan brodd í sóknarleik liðsins í kvöld.

Það var svo í uppbótartíma að Víðir komst í 0-2. Gunnar Már handsamaði þá knöttinn í markinu og stuggaði í kjölfarið sakleysislega við Víðismanni. Dómarinn dæmdi hins vegar brot á Gunnar þannig að Víðismenn fengu vítaspyrnu skoruðu úr henni mark númer tvö.

Eftir átta umferðir er KFR í 7. sæti deildarinnar með 10 stig.

Fyrri greinSelfyssingar sogast niður í fallbaráttuna
Næsta greinGróður orðinn prýðilegur í Skúmstungum