„Það þurfa allir að gefa í“

Gunnar Rafn Borgþórsson tók við þjálfun karlaliðs Selfoss í knattspyrnu í síðustu viku eftir að Zoran Miljkovic hætti með liðið. Hann segir mikla vinnu framundan við þjálfun tveggja meistaraflokka.

Gunnar segist ekki á byrjunarreit með karlaliðið heldur verði haldið áfram að byggja á þeim grunni sem fyrir er.

„Við erum bara aðeins að auka tempóið á æfingum, auka á samvinnina og fá menn til að hafa gaman af hlutunum. Það er margt mjög gott búið að gerast hérna áður en ég kem inn í þetta, fyrrverandi þjálfari gerði marga mjög góða hluti og við byggjum bara á því. Við erum ekkert að byrja upp á nýtt heldur höldum áfram og bætum í. Þá á ég ekki bara við strákana í liðinu heldur líka þá sem vinna að klúbbnum, aðstandendur og stuðningsmenn. Það þurfa allir aðeins að gefa í svo að hlutirnir gangi upp,“ segir Gunnar sem vill meðal annars bæta líkamlegt ástand leikmanna.

„Það má segjast eins og er að standið á liðinu mætti vera betra en við erum fljótir að vinna það upp ef við æfum vel og æfum rétt. Ef allir eru tilbúnir til þess að leggja aukalega á sig, æfa aðeins meira og skynsamlega og hugsa vel um sig, þá náum við því á örfáum vikum.“

Gunnar er nú þjálfari bæði meistaraflokks karla og kvenna hjá Selfyssingum og til þess að það gangi upp segir hann að skipulagið verði að vera gott.

„Það verður hörku vinna en þetta snýst bara um skipulag. Við erum búin að skipuleggja allt sumarið út frá æfingum og leikjum og æfingaálagi. Ég sé fleiri kosti í þessu heldur en hitt, það verður meira að gera hjá mér, sem er allt í lagi, en ég get til dæmis farið að taka góðar aukaæfingar með stelpunum og strákunum saman. Við erum þegar búin að taka eina slíka og það var ein besta æfingin sem við höfum tekið í sumar,“ segir Selfossþjálfarinn sem á greinilega gott og mikið bakland.

„Þetta er bara vertíð sem við klárum í september, það eru allir samtaka í þessu. Áður en ég tók ákvörðun um að taka starfið hjá karlaliðinu þá talaði ég við kvennaliðið, konuna mína og Jóa aðstoðarþjálfara og spurði hvort þau væru til í að gera þetta með mér. Það voru allir til í það og þá ákvað ég að slá til.“

Fyrri grein„Einfalt upplegg, með krosslagða fingur“
Næsta greinAusturvegurinn lokaður í dag