„Ætluðum að reyna að hlaupa með þeim“

Laskað lið Selfoss fékk skell á heimavelli þegar Framarar komu í heimsókn í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld.

„Fram er bara sterk­ara lið en við í dag. Við ætluðum að reyna að hlaupa með þeim og við gát­um það í tuttugu mín­út­ur en svo skildu leiðir. Það var samt margt gott í þessu í dag og leik­ur­inn var eld­skírn fyr­ir ungu stelp­urn­ar okk­ar,“ sagði Örn Þrast­ar­son, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var jafn fyrstu fimmtán mínúturnar en þá skildu leiðir og Framarar stungu af. Staðan var 13-18 í leikhléi og lokatölur urðu 23-34.

Selfoss lék stærstan hluta leiksins án lykilmanna þar sem Perla Albertsdóttir var veik og Kristrún Steinþórsdóttir meidd. Ungir leikmenn fengu því mikinn spiltíma í kvöld en styrkleikamunurinn var mikill og Framarar höfðu örugg tök á leiknum.

Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Harpa Brynjarsdóttir skoraði 4/1, Arna Kristín Einarsdóttir, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu allar 3 mörk, Katla María Magnúsdóttir 2 og þær Katla Björg Ómarsdóttir og Elva Rún Óskarsdóttir skoruðu báðar 1 mark.

Þrátt fyrir skellinn áttu markverðir Selfoss ágæta kafla. Viviann Petersen varði 8 skot og Þórdís Erla Gunnarsdóttir 5.

Fyrri greinGripaflutningabíll valt á Þrengslavegi
Næsta greinJóna Sólveig leiðir lista Viðreisnar