Ægissigur í skrautlegum leik

Annan leikinn í röð náðu Ægismenn að knýja fram sigur í 3. deild karla á lokamínútum leiksins. Ægir sótti Afríku heim í kvöld og sigraði 4-5.

Þetta var mikill baráttuleikur og gæði knattspyrnunnar lítil eins og oft vill verða í leikjum Afríku. Ægismenn komust yfir í fyrri hálfleik með marki Milan Djurovic og staðan var 0-1 í hálfleik.

Matthías Björnsson skoraði annað mark Ægis í upphafi síðari hálfleiks en þá tók við hörmulegur kafli Ægismanna, Afríka skoraði þrjú mörk í röð og komst yfir, 3-2.

Lárus Arnar Guðmundsson lét ekki bjóða sér þetta og jafnaði, 3-3, fyrir Ægi, en aftur komst Afríka yfir, 4-3. Arnar Skúli Atlason jafnaði fyrir Ægi og það var svo Albert Sölvi Óskarsson sem skoraði sigurmark Þorlákshafnarliðsins úr aukaspyrnu á 89. mínútu leiksins.

Ægir hefur unnið báða leiki sína í deildinni naumlega, en það skiptir ekki máli því liðið er ósigrað á toppi riðilsins.

Fyrri greinÖskulagið víða fleiri tugir sentimetra
Næsta greinNjálumót í Þórbergssetri í kvöld