Ægir varð undir í Breiðholtinu

Ægir heimsótti ÍR í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin eru að berjast í efri hluta deildarinnar og náðu heimamenn að knýja fram 2-1 sigur undir lokin.

Fyrri hálfleikur var jafn og fátt um færi en ÍR ingar komust yfir á 12. mínútu með marki frá Jóni Gísla Ström. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Ægismenn sóttu nokkuð í upphafi síðari hálfleiks án þess að ná að skora. Það var ekki fyrr en á 76. mínútu að sóknir Ægis báru árangur en Darko Matejic náði þá að koma knettinum í netið.

Bæði lið fengu færi á lokakaflanum til þess að klára leikinn en ÍR ingar komust yfir aftur þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þar var Jón Gísli aftur á ferðinni og reyndist þetta sigurmark leiksins.

Ægir er í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en ÍR er í 2. sæti með 20 stig. Næsti leikur Ægis er á föstudagskvöld þegar Afturelding kemur í heimsókn í Þorlákshöfn.

Fyrri greinJafnt eftir æsilegar lokamínútur
Næsta greinFólki ráðið frá því að stoppa við Múlakvísl