Ægir vann Suðurlandsslaginn

Ægir lagði Árborg 2-0 þegar liðin mættust í 3. deild karla í knattspyrnu í Þorlákshöfn í dag.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Ægismenn komust reyndar tvívegis einir innfyrir á fyrstu fjórum mínútum leiksins en Ingi Rafn Ingibergsson hitti ekki á rammann og Elías Einarsson varði vel frá Hafþóri Agnarssyni.

Á 9. mínútu unnu Árborgarar boltann á vallarhelmingi Ægis og Tómas Kjartansson sendi góða sendingu fyrir sem Guðmundur Garðar Sigfússon náði ekki að stýra með kollinum á mark Ægis.

Á 21. mínútu vildu Árborgarar fá vítaspyrnu þegar Árni Páll Hafþórsson féll í vítateignum og fimm mínútum síðar skoraði Arnar Freyr Óskarsson að því er virtist löglegt mark en aðstoðardómarinn dæmdi Arnar rangstæðan.

Staðan var 0-0 í hálfleik en Ægismenn komust í 1-0 strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks. Boltanum var þá rennt innfyrir vörn Árborgar, Elías kom út á móti og hreinsaði frá en skaut beint í Milan Djurovic og af honum hrökk boltinn í tómt markið.

Á 68. mínútu tók Predrag Dordevic á mikinn sprett upp hægri kantinn og renndi svo boltanum fyrir þar sem Eyþór Guðnason rétt missti af honum fyrir framan markið. Tveimur mínútum síðar var Magnús Sigurðsson í svipaðri stöðu þegar hann missti af fyrirgjöf frá Inga Rafni.

Árborgarar fengu kjörið færi til að jafna á 73. mínútu þegar Hartmann Antonsson slapp einn í gegn en Magnús Karl Pétursson sá við honum og varði vel. Mínútu síðar tók Dordevic aukaspyrnu hinu megin á vellinum og skaut í stöngina af löngu færi. Hann var aftur á ferðinni á 77. mínútu en Elías varði vel aukaspyrnu með jörðinni.

Síðustu tíu mínútunar lögðu Árborgarar allt kapp á sóknina og opnaðist leikurinn töluvert við það. Árborgarar fengu tvö ágæt færi og Ægismenn sömuleiðis en á 90. mínútu geystust þeir fram í skyndisókn sem Eyþór Guðnason batt endahnútinn á þegar hann kom boltanum í netið hjá Árborgurum og tryggði Ægi 2-0 sigur.

Ægir hafði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni fyrir leikinn en liðið mun mæta Hugin frá Seyðisfirði í 8-liða úrslitunum. Árborg lauk leik í sjötta sæti riðilsins með sautján stig.

Fyrri greinHSK í fjórða sæti
Næsta greinFjölskylduskemmtun við Herjólfshúsið