Ægir og Hamar töpuðu – Stórsigur hjá KFR

Ægir og Hamar töpuðu leikjum sínum í næstsíðustu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í dag. KFR vann 5-0 sigur á Kára í 3. deildinni.

Ægir fékk Njarðvík í heimsókn og urðu lokatölur 1-2. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik, Þorkell Þráinsson kom Ægi yfir á 25. mínútu en Njarðvíkingar svöruðu með tveimur mörkum fyrir leikhlé.

Hamar heimsótti Reyni í Sandgerði. Heimamenn leiddu 1-0 í hálfleik og bættu svo öðru marki við eftir fimmtán mínútna leik í síðari hálfleik. Varamaðurinn Ragnar Valberg Sigurjónsson klóraði í bakkann fyrir Hamar á 70. mínútu og þar við sat. Lokatölur 2-1.

KFR mætti botnliði Kára í Akraneshöllinni í 3. deild karla. Ólafur Tryggvi Pálsson kom KFR yfir með eina marki fyrri hálfleiks en í þeim síðari opnuðust allar flóðgáttir. Þjálfararnir Guðmundur Garðar Sigfússon og Sveinbjörn Jón Ásgrímsson skoruðu báðir, auk þess sem Helgi Ármannsson og Andri Freyr Björnsson bættu við mörkum. Eftir fjóra sigurleiki í röð lauk KFR keppni í 3. deildinni í 3. sæti með 28 stig.

Fyrri greinSelfoss tapaði fyrir toppliðinu
Næsta greinSelfosskonur töpuðu í lokaumferðinni