Ægir og Hamar töpuðu

Ægir tapaði heima gegn Reyni Sandgerði og Hamar úti gegn Aftureldingu í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikur Ægis og Reynis var tíðindalítill framan af og einkenndist helst af barningi í rokinu úti á velli. Ægismenn sóttu gegn vindinum og voru meira með boltann og því var það nokkuð gegn gangi leiksins þegar gestirnir komust yfir á 25. mínútu. Boltinn small þá í stönginni á marki Ægis eftir aukaspyrnu og frákastið barst til eins leikmanns gestanna sem skoraði af öryggi úr teignum.

Milan Djurovic jafnaði metin fyrir Ægi nokkrum andartökum síðar þegar Ægismenn prjónuðu sig í gegnum vörn gestanna. Reynismenn svöruðu hins vegar fyrir sig á 41. mínútu þegar kantmaður þeirra fór illa með Liam Killa hægra megin í vítateignum og smurði svo knettinum upp í fjærhornið framhjá Huga Jóhannessyni, markmanni Ægis. 1-2 í hálfleik.

Ægismenn léku með vindinn í bakið í síðari hálfleik en Kári gagnaðist þeim lítið og gestirnir tóku öll völd á vellinum. Hugi gerði tvívegis vel í markinu á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiksins og Darko Matejic var nálægt því að skora eftir hornspyrnu en markvörður gestanna kom fingurgómunum í boltann sem fór yfir markið.

Reynir komst í 1-3 þegar 76 mínútur voru á klukkunni. Þeir fengu þá aukaspyrnu úti á velli og boltanum var rennt vinstra megin inn á vítateiginn á dauðafrían mann sem skoraði af öryggi í fjærhornið. Tveimur mínútum síðar varði Hugi vel eftir snyrtilega útfærða skyndisókn gestanna.

Ægismenn bættu í sóknina á síðustu mínútum leiksins en uppskáru ekki nein teljandi færi. Gestirnir nýttu sér það að Ægismenn fóru framar með því að skora úr mjög hægri skyndisókn á 89. mínútu og lokatölur urðu 1-4.

Hamar sleginn niður í fyrri hálfleik
Hvergerðingar gerðu ekki góða ferð í Mosfellsbæinn í kvöld þar sem þeir mættu Aftureldingu. Heimamenn komust í 5-1 í fyrri hálfleik og leikurinn þar með búinn. Eiríkur Raphael Elvy skoraði mark Hamars og jafnaði 1-1 á 23. mínútu. Afturelding bætti við sjötta markinu á 90. mínútu og loktölur urðu 6-1.

Ægir er í 10. sæti 2. deildarinnar með 17 stig en Hamar er í 11. sæti með 10 stig.

Fyrri greinGlæsilegt Olísmót að baki
Næsta greinHjörtur Már stórbætti eigið met