Ægir náði í stig en Hamar tapaði

Ægismenn gerðu 2-2 jafntefli við KF á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld en Hamar tapaði 4-3 gegn Magna á útivelli í 3. deildinni.

Ægismenn voru komnir í vænlega stöðu í hálfleik gegn KF en Ágúst Freyr Hallsson hafði þá skorað úr vítaspyrnu og Þorkell Þráinsson bætt öðru marki við, 0-2.

Jóhann Óli Þórbjörnsson fékk tvö gul spjöld í upphafi síðari hálfleiks svo að Ægismenn léku manni færri síðasta hálftímann. Þorlákshafnarliðið reyndi hvað af tók að halda fengnum hlut en heimamenn skoruðu tvívegis undir lokin. Jöfnunarmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma, 2-2.

Ægir er í 9. sæti 2. deildarinnar með 7 stig.

Á Grenivík mættust Magni og Hamar í 3. deildarslag. Samúel Arnar Kjartansson kom Hamri yfir á 8. mínútu en heimamenn jöfnuðu tíu mínútum síðar og komust svo yfir undir lok fyrri hálfleiks. Hvergerðingar náðu að jafna á lokamínútu fyrri hálfleiks og þar var Samúel aftur að verki, 2-2.

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru fjörugar, Magni komst yfir á 52. mínútu en Ingþór Björgvinsson jafnaði tveimur mínútum síðar fyrir Hamar, 3-3. Á 64. mínútu skoruðu Magnamenn sigurmarkið og þar við sat þrátt fyrir ágætar tilraunir beggja liða á síðasta hálftímanum.

Hamar er á botni 3. deildar eftir fimm leiki, án stiga.

Fyrri greinReiknað með fjölmenni
Næsta greinSumarhátíð í Heiðarblóma