Ægir, KFR og Hamar áfram

Fyrstu umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu lauk í dag. Ægir, KFR og Hamar komust áfram af sunnlensku liðunum.

Ægir heimsótti Reyni Sandgerði í dag en bæði lið leika í 2. deild. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Ágúst Freyr Hallsson Ægi yfir á 59. mínútu en Reynismenn jöfnuðu og komust yfir á næstu tólf mínútum. Á 77. mínútu breytti Darko Matejic stöðunni í 2-2 og hann var svo aftur á ferðinni með sigurmark Ægis á 83. mínútu. Ægir tekur á móti Aftureldingu í 2. umferð.

KFR, sem leikur í 3. deild tók á móti 4. deildarliði Álftaness og vann 2-0 sigur á lokamínútunum. Bjarki Axelsson braut ísinn á 87. mínútu og Helgi Ármannsson kórónaði sigurinn með marki í uppbótartíma.

Þriðjudeildarlið Hamars tók á móti 4. deildarliði Snæfells og vann öruggan 6-1 sigur. Staðan var 2-0 í hálfleik. Samúel Kjartansson skoraði þrennu fyrir Hamar, Tómas Kjartansson skoraði tvö mörk og Ingþór Björgvinsson eitt. Hamr og KFR mætast því í 2. umferðinni og fer leikurinn fram í Hveragerði.

Árborg, sem leikur í 4. deildinni, tapaði í vítaspyrnukeppni gegn 3. deildarliði Víðis Garði en leikið var á Selfossvelli. Víðir komst yfir á 20. mínútu en Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var jafnari og á 61. mínútu jafnaði Kristján Valur Sigurjónsson með marki úr vítaspyrnu. Staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingin var ákaflega tíðindalítil. Því var gripið til vítaspyrnukeppni sem Víðismenn unnu 2-4 og samtals 3-5. Ingimar Helgi Finnsson og Lárus Hrafn Hallsson skoruðu fyrir Árborg í vítakeppninni en markvörður Víðis varði tvær spyrnur, frá Snorra Sigurðarsyni og Herði Jóhannssyni.

Fjórðudeildarlið Stokkseyrar tapaði 0-1 fyrir utandeildarliði Ármanns á Selfossvelli. Barði Páll Böðvarsson varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net strax á 6. mínútu leiksins og reyndist það eina mark leiksins.

Utandeildarlið Gnúpverja tapaði 4-0 fyrir KFG í Garðabænum. Staðan var 3-0 í hálfleik.

Leikirnir í 2. umferð munu flestir fara fram þann 13. maí en auk Ægis, KFR og Hamars koma Selfyssingar þá inn í keppnina og mæta 4. deildarliði KH á útivelli.

Fyrri greinFengu að sjá viðbragðsaðila að störfum
Næsta greinBikarmeistaratitill á Stokkseyri