Ægir blandar sér í baráttuna

Ægismenn ætla að blanda sér í toppbaráttu B-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu en þeir unnu botnlið Hvíta riddarans 1-2 á útivelli í gærkvöldi.

Þrátt fyrir að vera á botninum án stiga hefur Hvíti riddarinn sýnt það í síðustu leikjum að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Ægismenn byrjuðu betur og komust yfir strax á 2. mínútu þegar Vincent Ekoman átti gott skot að marki sem fór í netið með viðkomu í Ársæli Jónssyni. Í kjölfarið beitti Ársæll reynslu sinni til að fá markið skráð á sig og tókst það.

Ægismenn voru mikið meira með boltann í fyrri hálfleik og fengu nokkur góð færi en eins og áður gekk illa að koma blöðrunni í netið. Staðan var 0-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Ægismenn stjórnuðu leiknum en gekk illa að skora. Um miðjan seinni hálfleik jöfnuðu Riddararnir svo með marki eftir aukaspyrnu en Eyþór Guðnason skoraði sigurmarkið fyrir Ægi á 78. mínútu. Eyþór fékk þá frábæra stungusendingu frá varamanninum Matthíasi Björnssyni og kláraði færið vel.

Ægismenn hefðu getað bætt í á lokamínútunum og áttu meðal annars sláarskot en fleiri urðu mörkin ekki. Ægir hefur nú 10 stig í 5. sæti riðilsins en bilið er ekki nema fjögur stig í topplið Léttis sem á leik til góða gegn KFS.

Fyrri greinLækka gjöld á byggingarhæfum lóðum
Næsta greinStaðsetning póstkassa skoðuð