Ægir bjargaði sér frá falli

Ægismenn munu leika áfram í 2. deild karla í knattspyrnu að ári eftir góðan sigur á toppliði HK í kvöld. Á sama tíma tapaði Höttur og féll í 3. deild með Hamri.

Ægir sýndi toppliðinu enga virðingu og Þorlákshafnarliðið komst í 2-0 á fjögurra mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik. Darko Matejic braut ísinn og skömmu síðar fylgdi mark frá Hauki Má Ólafssyni.

HK minnkaði muninn í 2-1 á 41. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Matejic aftur fyrir Ægi og hann kórónaði þrennuna á 76. mínútu og staðan þá orðin 4-1. Toppliðið virtist slegið út af laginu en gestirnir klóruðu þó í bakkann á 81. mínútu og lokatölur leiksins urðu 4-1.

Þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni og sex stig í pottinum eru Ægismenn komnir með sjö stiga forskot á Hött. Ægir er í 10. sæti deildarinnar með 23 stig en Höttur hefur 16 og eru Héraðsbúar fallnir ásamt Hamri frá Hveragerði sem er á botninum með 10 stig.

Hamar mætti Njarðvík á útivelli í kvöld og tapaði 5-1 en staðan var orðin 2-0 eftir sextán mínútna leik og 3-0 í hálfleik. Vignir Daníel Lúðvíksson skoraði sárabótarmark fyrir Hvergerðinga á 86. mínútu en komst í 5-0 nokkrum mínútum fyrr.

Fyrri greinJóhann með glæsimark í sannfærandi sigri
Næsta greinHK vann Selfoss í hörkuleik