„Þú verður að klára færin“

Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, var gríðarlega svekktur eftir 2-3 tapið gegn Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er gríðarlega svekktur með að hafa ekki náð einu stigi hér í kvöld því við fengum fjöldan allan af færum í síðari hálfleik og vorum búnir að koma okkur í góða stöðu í fyrri hálfleik,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Það kom slæmur kafli hjá okkur undir lok fyrri hálfleiks þar sem við vorum ekki að loka nógu vel svæðum og þeir fengu að spila á mili varnar og miðju. Við vorum síðan búnir að gíra okkur upp í seinni hálfleikinn en fáum mark strax í andlitið,“ sagði Gunnar en bætti því við að hann hafi verið ánægður með hvernig liðið brást við þriðja markinu.

„Við náðum að koma okkur strax inn í leikinn aftur og minnkuðum muninn og svo vantaði bara herslumuninn undir lokin að við næðum að bæta við þriðja markinu.“

Heilt yfir var leikurinn jafn og bæði lið fengu góð færi sem fóru forgörðum. Fyrsta mark Haukanna var þó nokkuð gegn gangi fyrri hálfleiks en það kom þeim á bragðið. „Það er ekkert að gera við fyrsta markinu hjá þeim, aukaspyrna sem syngur nánast í vinklinum en ég er mjög ósáttur við mark númer tvö og þrjú,“ segir Gunnar.

„Við erum ekki lið sem á að fá á sig þrjú mörk, það er alltof mikið og það er erfitt að vinna leiki þegar maður fær á sig þrjú mörk. Jafntefli hefði verið sanngjarnt í kvöld ef maður tínir saman færin í leiknum en það telur ekki neitt, þú verður að klára færin og það gerðum við ekki.“

Fyrri greinTíu milljónir í atvinnuátak fyrir ungmenni
Næsta greinHreinn Heiðar sveif yfir 1,97 m