Þrjúhundruð hlupu Laugaveginn

Selfyssingurinn Stefán Þór Hólmgeirsson var fyrsti Sunnlendingurinn í mark í Laugavegshlaupinu sem fram fór í dag. Hlaupið er á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, 55 km leið.

Stefán hljóp á 5:39:54 klst og var sautjándi í mark í heildarkeppninni og níundi í flokki 40-49 ára karla. Skammt á eftir Stefáni kom Guðmundur Tryggvi Ólafsson á 5:52:31 klst.

Helgi Marvinsson varð í 14. sæti í flokki 50-59 ára karla. Helgi hljóp á 6:33:44 klst.

Björk Steindórsdóttir var fyrsta sunnlenska konan í mark en hún hljóp á 6:58:25 klst og varð í 18. sæti í kvennaflokki. Björk varð níunda í flokki 40-49 ára kvenna.

Steinunn H. Eggertsdóttir varð í 11. sæti í flokki 30-39 ára kvenna á tímanum 7:10:48 klst og Daldís Ýr Guðmundsdóttir varð í 20. sæti í sama flokki á 7:41:11 klst.

Sigurvegarar hlaupsins voru Alexandre Vuistiner sem hljóp á 4:59:20 klst og Guðbjörg Björnsdóttir á 5:50:54 klst.

Það voru 306 hlauparar sem hlupu af stað í sól og blíðu frá Landmannalaugum en 289 komust í endamarkið í Þórsmörk.