Þrjú rauð á loft í tapi Ægis

Ægir tapaði 2-0 gegn KF þegar liðin mættust á Ólafsfjarðarvelli í kvöld í 3. deild karla í knattspyrnu.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en hlutirnir fóru heldur betur að gerast á síðasta hálftímanum.

Á 62. mínútu fékk Einar Ottó Antonsson sitt annað gula spjald og þar með rautt og sjö mínútum síðar komst KF í 1-0. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum fékk Jonathan Hood beint rautt spjald og eitthvað voru Ægismenn ósáttir við dómgæsluna því Sveinbjörn Ásgrímsson, þjálfari Ægis, fékk gula spjaldið á 82. mínútu og Guðbjartur Einarsson, forráðamaður liðsins, fékk rautt spjald mínútu síðar.

Tveimur færri inni á vellinum áttu Ægismenn engin svör og KF bætti öðru marki við þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur 2-0.

Ægir er í 6. sæti 3. deildarinnar með 7 stig en KF í 8. sæti með 6 stig.

Fyrri greinSunnlendingar stefna á Perlubikarinn
Næsta greinMilljónunum rigndi á Suðurlandi