Þrjú mörk á fimm mínútum í Suðurlandsslag

Árborg lagði Stokkseyri 2-1 í hörkuleik í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í dag. Öll mörkin komu á fimm mínútna kafla síðla leiks.

Stokkseyringar voru sterkari fyrstu 25 mínútur leiksins og lágu nokkuð á Árborgurum sem beittu árangurslausum skyndisóknum. Ekki dró þó til tíðinda fyrr en á 20. mínútu leiksins þegar Þórhallur Aron Másson tók glæsilega bakfallsspyrnu og boltinn hafnaði ofan á samskeytum Árborgarmarksins. Strax í kjölfarið fékk Hartmann Antonsson dauðafæri hinu megin en mokaði boltanum yfir tómt markið af stuttu færi. Tveimur mínútum síðar bjargaði Barði Páll Böðvarsson boltanum frá tánum á Guðna Þór Þorvaldssyni á síðustu stundu upp við mark Stokkseyrar.

Eftir um hálftíma leik kom góður kafli frá Árborg sem vann þá flest návígi úti á vellinum og þjarmaði vel að vörn Stokkseyrar. Ársæll Ársælsson, markvörður Stokkseyrar, varði aukaspyrnu frá Guðmundi Sigurðssyni á 32. mínútu og aftur skot frá Magnúsi Helga Sigurðssyni sem náði frákastinu af fyrri vörslunni. Þremur mínútum síðar átti Ingimar Helgi Finnsson þrumuskot að marki Stokkseyrar sem sleikti stöngina en á 37. mínútu skapaðist hætta inni í vítateig heimamanna eftir að Einar Guðni Guðjónsson, markvörður, hafði farið í skógarferð en Hörður Jóhannsson mokaði boltanum í burtu á síðustu stundu, 0-0 í hálfleik.

Sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik en fátt var um færi. Á 60. mínútu stóð Stokkseyringurinn Andri Marteinsson af sér þungt höfuðhögg eftir skallaeinvígi. Hann var hins vegar eitthvað ringlaður í kjölfarið og hneig niður í svimakasti stuttu síðar. Andri var borinn af velli og sjúkrabíll kallaður til en ekki kom til þess að Andri væri fluttur í burtu og var hann kominn aftur á hliðarlínuna undir lok leiks.

Á meðan hlúð var að Andra utan vallar lifnaði leikurinn nokkuð við og á 65. mínútu slapp Magnús Helgi innfyrir Stokkseyrarvörnina og hugðist lyfta boltanum yfir Ársæl markmann en Stokkseyringurinn sá við honum og varði vel.

Á 72. mínútu var markaþurrðin úti þegar Atli Rafn Viðarsson lyfti boltanum glæsilega af löngu færi yfir Einar Guðna í marki Árborgar og kom Stokkseyringum yfir.

Forysta þeirra varði þó ekki nema í þrjár mínútur því þá jafnaði Hartmann metin fyrir Árborg. Ársæll Jónsson slapp innfyrir þar sem Einar Ingi Jónsson braut á honum en dómarinn dæmdi ekki neitt. Hartmann var ekkert að spá í það heldur pressaði boltann af varnarmanni og skoraði með góðu skoti frá vítateigslínunni.

Rúmri mínútu síðar slapp Árni Páll Hafþórsson innfyrir vörn Stokkseyrar og var á undan Ársæli markmanni í boltann. Árni renndi knettinum út í teiginn þar sem Guðni Þór skoraði af öryggi í tómt markið.

Árborgarar héldu áfram og á 79. mínútu komst Hartmann í dauðafæri en Hilmar Þór Jónsson renndi sér fyrir boltann á ögurstundu og bjargaði í horn.

Jóhann Bjarnason kom inná í liði Árborgar á 86. mínútu og strax mínútu síðar lék hann varnarmenn Stokkseyrar grátt og renndi svo boltanum rétt framhjá markinu. Tveimur mínútum síðar var Jóhann aftur á ferðinni þegar hann slapp inn í vítateig og féll með tilþrifum en dómarinn lét ekki glepjast og lét leikinn halda áfram.

Lokatölur urðu 2-1 og þegar öll stig hafa verið talin upp úr hattinum enduðu Árborgarar í 5. sæti riðilsins með 19 stig en Stokkseyri vermir botnsætið með 3 stig.

Fyrri greinLeikir dagsins: Selfoss, Ægir og KFR með mikilvæga sigra
Næsta greinSpilaði með tveimur sonum sínum