Þrír markmenn dugðu ekki til sigurs

Selfyssingar tefldu fram þremur markvörðum þegar þeir mættu Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Það var þó ekki til komið af góðu en Selfoss tapaði leiknum 0-4.

Fyrri hálfleikur var jafn þar sem liðin skiptust á að sækja án þess þó að fá nokkur dauðafæri. Á 37. mínútu varð síðan vendipunktur í leiknum þegar Michele Dalton, markvörður Selfoss, braut á sóknarmanni Vals innan teigs svo að Dalton var vísað af velli með rautt spjald og Valskonur fengu vítaspyrnu. Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, setti upp hanskana en hún kom engum vörnum við og Elín Metta Jensen skoraði úr spyrnunni. 0-1 í hálfleik.

Gunnar Borgþórsson gerði skiptingu í hálfleik, tók Evu Lind Elíasdóttur af velli og inná kom útispilarinn Brynja Valgeirsdóttir en hún tók við hönskunum frá Guðmundu sem fór aftur í framlínuna.

Valskonur mættu mjög ákveðnar til leiks eftir hlé og lágu á Selfossliðinu framan af. Selfossvörnin hélt þó ágætlega og vörðust þær vínrauðu grimmilega lengst af. Á 56. mínútu skall hurð nærri hælum upp við mark Selfoss þegar Valskonan Dagný Brynjarsdóttir átti þrumuskot í stöngina og mínútu síðar varði Brynja boltann vel í þverslána og út. Valur hélt áfram að þjarma að Selfossvörninni en Brynja varði vel í tvígang og þegar 70. mínútur voru liðnar af leiknum var staðan enn 0-1, en ekkert í spilunum sem benti til þess að Selfoss næði að skora.

Valur gerði svo endanlega út um leikinn með tveimur skallamörkum eftir föst leikatriði á 71. og 73. mínútu. Dagný skoraði fyrra markið eftir vel útfærða hornspyrnu en varamaðurinn Kristín Ýr Bjarnadóttir það síðara eftir snarpt spil upp úr aukaspyrnu.

Á 84. mínútu kórónaði Dagný svo 0-4 sigur gestanna þegar hún slapp ein innfyrir og kláraði færið af yfirvegun. Hinu megin á vellinum slapp Hrafnhildur Hauksdóttir ein innfyrir undir lokin en varnarmaður Vals komst fyrir boltann á síðustu stundu.

Þetta var síðasti leikur Selfoss fyrir fríið sem tekur nú við í deildinni vegna Evrópukeppni kvenna sem hefst eftir níu daga. Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 13 stig þegar mótið er hálfnað.

Fyrri greinBúast við meira en 40 þúsund gestum á árinu
Næsta greinFyrstu þrír metrarnir í Njálureflinum kláraðir