Þrír Íslandsmeistarar frá Selfossi

Keppendur frá júdódeild Umf. Selfoss unnu þrjá Íslandsmeistaratitla á Íslandsmóti 11-14 ára á Akureyri um helgina.

Keppni hófst í aldursflokknum 11-12 ára. Þar kepptu tveir fyrir hönd UMFS þeir Elmar Kristinsson og Úlfur Böðvarsson. Elmar sem keppti í -34 kg var þarna að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti hafnaði í 4. sæti eftir hetjulega baráttu. Úlfur keppti í -55 kg flokki. Það er skemmst frá því að segja að hann vann allar sínar viðureignir á uchi-mata og kom heim með Íslandsmeistaratitil.

Í aldurflokknum 13-14 ára var hörð barátta. Í -38 kg mætti Mikael Jafet Ragnarsson sterkur til leiks og sigraði alla andstæðinga sína eftir tvísýna baráttur á köflum. Mikael sýndi góða tækni og náði flottum köstum sem tekið var eftir, þarna er hann að uppskera árangur í samræmi við æfingasókn og mikla vinnu á æfingum.

Hrafnkell D. Batsson keppti í -50 kg flokki. Hrafnkell er að byrja æfingar aftur eftir handleggsbrot og var þar af leiðandi heldur á brattan að sækja hjá honum en hann endaði í 6. sæti. Grímur Ívarsson keppti í -55 kg flokki. Hann háði harða baráttu við marga sterka júdómenn og náði 3. sæti. Arnór Jónsson keppti í -60 kg flokki. Hann stóð í ströngu en sigraði allar sínar viðureignir með fullnaðarsigri og kom heim með Íslandsmeistaratitil.