Þrír fengu gullmerki GSÍ

Í 40 ára afmælisveislu Golfklúbbs Selfoss sl. sunnudag voru þrír félagar sæmdir gullmerki Golfsambands Íslands.

Jón Ásgeir Eyjólfsson, forseti GSÍ, ávarpaði veislugesti og heiðraði fjóra félaga í GOS. Bárður Guðmundarson, Jón Ágúst Jónsson og Gunnar Kjartansson fengu gullmerki GSÍ og Hlynur Geir Hjartarson fékk silfurmerki.

Gunnar Kjartansson var fyrst kosinn í stjórn GOS árið 1984, var hann ritari fyrstu árin, en tók svo að sér formennsku Vallarnefndar og starfaði ötullega að uppbyggingu vallarins. Ófáar stundirnar vann Gunnar á vellinum, sá um að byggja upp, flestar ef ekki allar, flatir vallarins. Það var ekki spurt um tíma eða stund, meira að segja sást til Gunnars á jóladag við flötina á fjórðu braut, en þar hafði myndast krapastífla, sem hann losaði. Hann sá um að borað var eftir vatni í landi Svarfhóls og lagði vökvunarlagnir að öllum flötum vallarins.

Jón Ágúst Jónsson var fyrst kosinn í stjórn GOS árið 1989 og tók að sér formennsku í Mótanefnd sem hann sinnti í fjögur ár. Árið 1993 var hann kjörinn formaður klúbbsins og gengdi hann formannstöðunni í sex ár. Á þessum árum tók völlurinn miklum breytingum og unnu Jón og Gunnar Kjartansson vel saman að uppbyggingu vallarins. Mörg handtökin og margar stundirnar hefur Jón skilið eftir sig á þeim árum, sem hann gengdi stjórnunarstörfum. Jón fór ekki um með hávaða eða látum, en hann var drýgri en margur og lét verkin tala.

Bárður Guðmundarson tók fyrst sæti í stjórn klúbbsins 1996. Hafði hann í nokkur ár þar áður starfað sem almennur nefndarmaður. Ritarastarfið féll honum í skaut fyrstu sex árin. Formaður Vallarnefndar varð hann 2003 og gegndi því starfi í þrjú ár. Árið 2006 var hann kosinn formaður GOS og situr í því embætti í dag. Er þetta því fimmtánda árið sem hann starfar sem stjórnarmaður Golfklúbbs Selfoss. Golfvöllurinn hefur verið hans líf og yndi síðustu ár og sett mikið tíma í sjálfboðavinnu til að gera völl og umhverfi hreint og fallegt.