Þrír þátttakendur verðlaunaðir

Héraðssambandið Skarphéðinn stóð fyrir sérstöku gönguverkefni í sumar, undir nafninu Fjölskyldan á fjallið. Alls voru 16 fjöll á sambandssvæðinu í þessu verkefni.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Dagskrána sem birti vikulega upplýsingar um fjall vikunnar.

Tilgangur verkefnisins var að hvetja fjölskyldur til að fara saman í léttar gönguferðir á fjöll á sambandssvæði HSK og vekja um leið athygli á almenningsíþróttaverkefnum HSK og UMFÍ og gildi útiveru og hreyfingar ásamt samveru fjölskyldunnar.

HSK hefur tekið þátt í gönguverkefni UMFÍ frá 2002 og að jafnaði tilnefnt tvö ný fjöll á hverju ári, þar sem settir hafa verið upp póstkassar með gestabók á viðkomandi fjöll. Það var gert í sumar og fjölmargir rituðu nöfn sín í bækur sem staðsettar voru á Fagrafelli í Rangárþingi og Dalafelli í Ölfusi.

Þátttakendur í verkefninu voru auk þess beðnir að skila inn þátttökueyðublaði þar sem setja átti upplýsingar um fjallgöngur á fjölln 16, eitt eða fleiri.

Í síðustu viku voru þrír þátttakendur verðlaunaðir fyrir þátttökuna, sem dregnir voru út úr hópi þátttakenda. Verðlaunaafhendingin fór fram í Intersport á Selfossi, en verslunin gaf veglega vinninga í formi vöruúttekta. Þá fengu verðlaunahafar HSK treyju að gjöf frá HSK.

Sérstaka viðurkenningu fékk Sævar Jónsson á Snjallsteinshöfða, en hann gekk á öll fjöllin í sumar. Þátttökuverðlaun hlutu þær Aldís Sigfúsdóttirá Selfossi og Árný Gestsdóttir, Suður-Nýjabæ 2, Þykkvabæ.

Göngunefnd HSK þakkar Dagskránni á Selfossi og Intersport á Selfossi fyrir ánægjulegt samstarf og þakkar um leið göngufólkinu fyrir þátttökuna.

Fyrri greinFjölbreytt og mögnuð dagskrá rithöfunda
Næsta greinHjallastefnan fauk og Geiri týndi hattinum