Þriggja marka tap í hörkuleik

Eyjamenn höfðu betur í uppgjöri Suðurlandsliðanna ÍBV og Selfoss í 1. deild karla í handbolta en liðin mættust í Eyjum í dag. Lokatölur voru 35-32 eftir hörkuleik.

Liðin mættust á Selfossi í 2. umferð deildarinnar og þá unnu Eyjamenn auðveldlega með þrettán marka mun. Leikurinn í dag var mun jafnari og hart barist á báða bóga.

Leikurinn var jafn framan af en þegar leið á fyrri hálfleik breyttu Selfyssingar stöðunni úr 11-10 í 12-16. Heimamenn klóruðu í bakkann undir lok fyrri hálfleiks en staðan í leikhléinu var 14-16.

Þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik höfðu Selfyssingar eins marks forystu, 18-19. Þá kom skelfilegur kafli þar sem menn voru að skjóta illa og missa boltann sem gaf Eyjamönnum færi á hröðum sóknum.

ÍBV náði mest sjö marka forskoti, 30-23, miðjan seinni hálfleik en þá tóku Selfyssingar við sér aftur. Þeir tóku tvo Eyjamenn úr umferð og riðluðu sóknarleik þeirra verulega. Selfoss minnkaði muninn í 32-29 þegar rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum og í kjölfarið áttu þeir vínrauðu góðan möguleika á að minnka muninn frekar. Hins vegar litu dómararnir framhjá tveimur augljósum vítadómum og munurinn varð aldrei minni en þrjú mörk. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir var staðan 33-30 og Eyjamenn sigldu sigrinum örugglega í höfn eftir það.

Með sigrinum fóru Eyjamenn aftur á topp deildarinnar en Selfoss er í 5. og næst neðsta sæti.

Atli Kristinsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss, Hörður Bjarnarson skoraði 6, Matthías Halldórsson 5, Trausti Eiríksson, Magnús Már Magnússon og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir þrjú mörk og þeir Eyþór Lárusson og Guðni Ingvarsson skoruðu sitt markið hvor.

Helgi Hlynsson varði 13/1 skot í mark Selfoss og Sverrir Andrésson 7/1.