Þriðji tapleikurinn í röð

Þriðja leikinn í röð töpuðu Selfyssingar 0-1 í Lengjubikar karla í knattspyrnu. Selfoss mætti 1. deildarliði BÍ/Bolungarvíkur í dag þar sem Djúpmenn sigruðu.

Pétur Georg Markan kom BÍ/Bolungarvík yfir á 17. mínútu og það reyndist vera eina mark leiksins.

Þegar um korter var eftir fékk Joe Tillen beint rautt spjald fyrir að traðka á leikmanni BÍ/Bolungarvíkur sem lá á vellinum.

BÍ/Bolungarvík náði með sigrinum í dag að krækja í sín fyrstu stig í Lengjubikarnum í ár en Selfyssingar eru einnig með þrjú stig eftir fimm leiki. Liðin eru í neðstu sætum riðilsins en Selfyssingar ofar, með betra markahlutfall.