Þrenna Guðmundar kom Árborg áfram

Guðmundur Sigurðsson skoraði öll þrjú mörk Árborgar þegar liðið vann 0-3 sigur á Hvíta riddaranum í 1. umferð Borgunarbikarsins í knattspyrnu á Varmárvelli í kvöld.

Guðmundur fór fyrir Árborgurum sem afgreiddu leikinn með þremur mörkum á þrettán mínútna kafla í fyrri hálfleik. Árborg komst yfir á 29. mínútu með þrumufleyg frá Guðmundi. Fimm mínútum síðar skoraði hann beint úr aukaspyrnu og á 42. mínútu kórónaði hann þrennuna með marki úr vítaspyrnu.

Árborg mætir Snæfelli eða Ármanni í 2. umferð bikarsins þann 14. maí.

1. umferðinni lýkur á morgun en þá tekur KFR á móti Létti, Ægir tekur á móti KB, Hamar heimsækir Ísbjörninn og Stokkseyri sækir Hómer heim.

Fyrri greinTómas Ellert: List í Árborg
Næsta greinSunnlenski sveitadagurinn í dag